Hafrún Eva Arnardóttir, Bryndís Eva Birgisdóttir og Inga Þórsdóttir

Móttekin 11. febrúar 2005 - Vefútgáfa 22. febrúar 2006

Ágrip

Tilgangur verkefnisins var að rannsaka neyslu fisks og lýsis meðal 11 ára barna í Reykjavík. Þátttakendur (n=54) voru 11 ára börn í Reykjavík sem tóku þátt í mati á gildi spurningalista í verkefninu ProChildren sem styrkt er innan 5. rammaáætlunar Evrópusambandsins. Meðalneysla fisks, lýsis og D-vítamíns úr þessum afurðum var reiknuð út frá þriggja daga skráningu að vetrarlagi. Magn var skráð samkvæmt vigtun fyrsta daginn og algengar mælieiningar notaðar seinni dagana (skammtur, flak, stykki og skeið). Fiskneysla var að meðaltali 24 g/dag (á bilinu 0-106 g/dag) og 60% barnanna borðuðu fisk einhvern skráningardaganna. Meðallýsisneysla var 0,7 g/dag (á bilinu 0,3-7,3 g) en tæp 20% barnanna höfðu tekið lýsi einhvern af þremur fyrstu skráningardögunum. Meðallýsineysla stelpna var 1,0 g/dag (á bilinu 0,7-7,3 g/dag) og 0,4 g/dag hjá strákum (á bilinu 0,3-4,3 g/dag) (P>0.05). Úr fiski og lýsi fengu börnin að meðaltali 1,6 µg af D-vítamíni á dag (á bilinu 0-10,9 µg/dag) en einungis 15% þátttakenda fengu 5 µg eða meira af D-vítamíni á dag úr fiski og lýsi. Fiskneysla 11 ára barna er minni en æskilegt getur talist meðal barna á þessum aldri og allt of fá börn taka lýsi. Stór hluti barna á þessum aldri fær líklega ekki nægilegt D-vítamín, en fiskur og lýsi eru megin uppsprettur D-vítamíns í matnum. Brýna þarf fyrir börnum, foreldrum og yfirvöldum mikilvægi fisk- og lýsisneyslu, ekki síst þar sem þessar fæðutegundir fullnægja þörf fyrir næringarefni sem er að finna í fáum öðrum fæðutegundum. Samanburður við fyrri rannsókn sýnir að neyslan hefur lítið breyst frá því sem var fyrir 10 árum síðan.

pdf sækja grein (pdf) [raust.is/2005/1/10/]