Valgerður Edda Benediktsdóttir

Móttekin: 28. apríl 2004 - Vefútgáfa: 16. ágúst 2004

Ágrip

Markmið rannsóknarinnar var að kanna hlutverk sphingosíns í boðflutningum og stjórnun á starfsemi hjartans í rottum. Sphingosín er eitt af innanfrumu boðefnum sphingomyelín boðkerfisins, en áhrif þess eru ekki fullkönnuð í hjartavöðvafrumum. Áhrif sphingosíns á hjartsláttartíðni í lifandi svæfðum rottum og á samdráttartíðni í ræktuðum hjartavöðvafrumum voru mæld. Ennfremur voru könnuð áhrif sphingosíns á innanfrumustyrk cAMP í óörvuðum hjartavöðvafrumum eða frumum sem örvaðar höfðu verið með isoproterenoli (sem örvar beta-adrenerga viðtaka) eða forskolini (sem örvar adenylcyklasa). Niðurstöður sýndu að í svæfðu dýrunum olli sphingosín, gefið í æð, talsverðri lækkun á hjartsláttartíðni sem var háð skammtastærð sphingosíns, en gekk alveg til baka á 40-60 mínútum. Tíðni samdrátta í ræktuðum hjartavöðvafrumunum minnkaði og tíðniaukning eftir örvun með isoproterenóli varð líka minni í nærveru 10μM sphingosíns samanborið við kontrólsýni. Formeðhöndlun ræktaðra hjartavöðvafruma með 10μM sphingosíni olli lækkun á grunnstyrk cAMP og dró úr hækkun á innanfrumustyrk cAMP eftir örvun með isoproterenóli. Örvun á cAMP framleiðslu með forskolini varð ekki fyrir áhrifum frá sphingosíni og má því útiloka að lækkun á cAMP styrk í návist sphingosíns stafi af áhrifum þess á adenylcyclasa. Við allar mælingar á cAMP styrk var fosfódíesterasa hindri (IBMX) settur í ræktunarætið til að koma í veg fyrir niðurbrot á cAMP. Samantekt: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að sphingosín taki þátt í stjórnun á starfsemi hjartans með því að minnka hana og draga úr áhrifum örvunar beta adrenergra viðtaka. Sphingosín veldur lækkun á innanfrumustyrk cAMP, en hefur þó ekki áhrif á virkni adenylcyklasa.

pdf sækja grein (pdf) [raust.is/2004/1/10/]