Carlos D. Magnússon, Anna Valborg Guðmundsdóttir og Guðmundur G. Haraldsson

Móttekin: 26. nóvember 2004 - Vefútgáfa: 22. desember 2006

Ágrip

Handhverfuhrein eterlípíð af gerð 1-O-alkyl-2,3-díasyl-sn-glýseróla skipuð EPA eða DHA fitusýru í sn-2 stöðu og miðlungslangri, mettaðri fitusýru í sn-3 stöðu, hafa verið smíðuð úr handhverfuhreinu (R)-2,3-ísóprópyliden-sn-glýseróli. Lípasa ásamt hefðbundnum lífrænum aðferðum var beitt við innleiðingu fitusýra á glýseról hlutann. 1-O-alkyl-sn-glýseról með alkylkeðjunum hexadekyl, oktadekyl og cis-9-oktadekenyl voru útbúin úr (R)-2,3-ísóprópyliden-sn-glýseróli og viðeigandi alkylbrómíði og í kjölfarið fylgdi sýruhvatað vatnsrof á ísóprópyliden verndarhópi. Kyrrsettur Candida antarctica lípasi var síðan notaður til að innleiða miðlungslangar fitusýrur staðvendið í sn-3 stöðu glýseról hlutans með hjálp vínýl estera af fitusýrunum. Loks voru n-3 (ómega-3) fitusýrurnar EPA og DHA innleiddar í sn-2 stöðu á mildan hátt með EDCI sem tengimiðil og DMAP sem hvata. Algjör staðvendni fékkst við innleiðingu fitusýranna og fengust heimtur 90% eða hærri úr hverju skrefi heildarefnasmíðinnar.

pdf sækja grein (pdf) [raust.is/2007/1/10/]