Hólmfríður Sveinsdóttir, V. Edda Benediktsdóttir og Ágústa Guðmundsdóttir

Móttekin: 26. nóvember 2004 - Vefútgáfa: 19. október 2006

Ágrip

Margskonar viðbótarhráefni úr sjávarfangi fellur til hér á landi og er megnið af því notað í ódýrt dýrafóður á formi fiskimjöls og lýsis. Hugsanlega mætti nýta viðbótarhráefni á borð við hrogn, bein og roð til framleiðslu á verðmætum lífefnum eins og lípíðum, ensímum og öðrum próteinum til notkunar í iðnaði. Markmið verkefnisins var að kanna fitusýrusamsetningu lípíða í hrognum loðnu (Mallotus villosus) og þorsks (Gadus morhua). Þetta var gert til að fá hugmynd um fýsileika þess að einangra og framleiða verðmæt lípíð úr hrognum sem ekki nýtast beint til manneldis. Fosfólípíð (PL) úr hrognum sjávarfiska, sem jafnan eru auðug af n-3 fjölómettuðum fitusýrum (FÓFS), mætti til dæmis nota sem fæðubótarefni eða til áframhaldandi vinnslu og framleiðslu á lípósómum. Fitusýrusamsetning var mæld í heildarlípíðum (HL), heildarfosfólípíðum (PL) og fosfatidylkólíni (PC) úr loðnu- og þorskhrognum. Að auki voru þríglýseríð (TG) greind í þorskhrognum. Fitusýrur voru greindar með gasgreini sem metylesterar eftir útdrátt lípíða, þunnlagsskiljun, og methyltengingu. Niðurstöðurnar sýndu að hlutfallslegt magn n-3 FÓFS í þorskhrognum var um 42,5% í HL, 41% í PL, 48% í PC, en nokkuð lægra, 23%, í TG. Í loðnuhrognum voru n-3 FÓFS 48% í HL, 45% í PL og 46% í PC. n-6 FÓFS í PC voru aðeins 2,5% í þorskhrognum og 1% í loðnuhrognum, en í HL og PL voru þær 3-4% í þorskhrognum og um 1,5% í loðnuhrognum. Í báðum fisktegundunum voru einómettaðar fitusýrur um 20-22% í HL og álíka í PL en 17-18% í PC hrognanna. Einómettaðar fitusýrur voru hinsvegar um 42% í TG úr þorskhrognum. Mettaðar fitusýrur voru u.þ.b. 25% í HL, PL og PC í hrognum beggja fisktegunda en í TG úr þorskhrognum voru þær um 20%. Niðurstöðurnar gefa til kynna að loðnuhrogn, sem eru ódýrari, aðgengilegri, og innihalda meira af n-3 FÓFS en þorskhrogn, séu fýsileg sem hráefni fyrir vinnslu n-3 FÓFS ríkra PL og jafnvel lípósóma. Niðurstöðurnar sýna einnig að magn n-3 FÓFS í heildarlípíðum hrogna loðnu og þorsks eru með því hæsta sem þekkist í algengum fiskafurðum og eru því líklegt að hrogn henti vel til vinnslu á n-3 FÓFS ríkum vörum til notkunar í markfæði og/eða fæðubótarefni.

pdf sækja grein (pdf) [raust.is/2007/1/08/]